Færsluflokkur: Bloggar
10.6.2007 | 19:08
Íslendingar eiga ungt og efnilegt fólk
Laugardaginn 9. júní var ég viðstödd afhendingu hvatningar- og nemendaverðlauna menntaráðs Reykjavíkur. Athöfnin fór fram í Tjarnarsal Ráðhússins og var þar viðstaddur fjöldi manns. Formaður menntaráðs, ásamt formennum nefndanna tveggja afhentu grunnskólanemum frá flestum grunnskólum Reykjavíkur verðlaun og viðurkenningarskjal fyrir fjölbreytt verkefni, námsárangur, félagsstörf, framfarir í samskiptum, textílmennt o.fl. Að afhendingu lokinni leit ég yfir þennan glæsilega hóp ungmenna og hugsaði með mér hve lánsöm við Íslendingar eru að eiga svona ungt og efnilegt fólk.
Bloggar | Breytt 11.6.2007 kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2007 | 15:13
Sveitarómantík og landbúnarkerfið
Ég dvaldi á Laugarvatni í nokkra daga í byrjun júní. Á Laugarvatni er gott að vera þar er alltaf gott veður eins og einn bóndinn á Laugarvatni sagði við mig þegar við mættumst rétt fyrir utan kaupfélagið í úrhellisrigningu. Ég mótmælti honum ekki enda er ég sammála. Það er alltaf spurning um hvernig maður lítur á hlutina.
Á fáeinum árum er áberandi hvað sumarbústaðabyggðin hefur stækkað í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi og í öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi. Í dag byggja menn stór einbýlishús með öllum nútímaþægindum á hálfum eða heilum hektara lands. Löndin eru girt og læst með lás sem hægt er að opna með því að slá inn númer í gsm síma eiganda. Fáein sveitabýli sjást ennþá. Mér segist svo hugur að byggðin á þessum svæðum eigi eftir að þéttast og tré, girðingar og hlið eiga eftir að byrgja okkur sýn til fjalla þegar ekið er eftir þjóðvegi eitt.
Menn ræða um litla nýliðun í bændastétt og að erfitt sé fyrir bændur að brauðfæða sig í hefðbundnum búskap. Margir bændur reyna að drýgja tekjurnar og stunda aðra atvinnu meðfram búskap og sumir starfrækja einhverskonar þjónustu við erlenda ferðamenn. Hefðbundinn búskapur er í hættu og bændur sjá sér ekki annað fært en að selja nýríkum Íslendingum jarðir sínar.
Áróður Samfylkingarinnar gegn bændum og landbúnaðarkerfinu hefur skapað neikvæða mynd af bændum og hefðbundnum búskap. Samfylkingin hefur undanfarin ár viljað stokka upp landbúnaðarkerfið, leggja niður verndartolla af landbúnaðarvörum og leyfa óhindraðan innflutning landbúnaðarvara frá öllum heimsálfum og þá sérstaklega frá Afríku og Asíu. Samfylkingin telur að tilgangurinn sé að lækka verð á landbúnaðarvörum til neytenda og aðstoða þróunarlöndin við að fóta sig í hnattvæðingunni. Það sem fylgir ekki sögunni er að með þessum aðgerðum er verið að útrýma bændastéttinni og hefðbundnum búskap á Íslandi. Stjórnvöld þurfa að skoða gaumgæfilega þær afleiðingar sem fyrirhugaðar breytingar í landbúnaðarkerfinu hafa í för með sér fyrir Íslendinga um ókomna framtíð.
Bloggar | Breytt 10.6.2007 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2007 | 22:08
Boð og bönn er ekki alltaf rétta leiðin til að ná árangri
Ég hætti að reykja 1. desember 1982, sá dagur er mér minnisstæður. Ég hætti að reykja m.a. vegna þess að sonur minn sem þá var rétt byrjaður í barnaskóla minnti mig daglega á að reykingar væru skaðlegar. Aðdragandinn að því að ég hætti að reykja var nokkuð langur. Í eitt ár taldi ég mér trú um að ég væri komin með slæman morgunhósta, að ég ætti erfitt með að labba upp stiga vegna mæði og það væri bæði dýrt og sóðalegt að reykja. Það voru mörg atriði sem ég tíndi til gegn reykingum til að undirbúa sálartetrið að hætta að reykja. Mér fannst nefnilega bara andskoti gott að reykja, - var mjög efnileg reykingakona, orðin horuð, grá og guggin. Drengurinn minn var hins vegar staðfastur í áróðri sínum á heimilinu og ég sem elska friðinn hætti að reykja.
Fyrst að ég gat hætt að reykja og þá geta það allir. Ágæt kona sagði mér að ef ég gæti hætt að reykja í þrjá daga þá væri baráttan við löngunina í sígarettur unnin. Þegar þrír erfiðir dagar voru liðnir tímdi ég ekki að byrja aftur, en löngunin var fyrir hendi. Í fjórar til fimm vikur gætti ég þess að hitta ekki vini sem reyktu. Ég smakkaði ekki áfengi í langan tíma eftir að ég hætti að reykja og ég fékk mér aldrei smók. Ég gekk í gegnum fráhvarfseinkenni eins og allir aðrir, fékk útbrot á bringuna, hóstaði slími, þyngdist töluvert, - en ég lét mig hafa það. Smám saman hvarf löngunin í sígarettur, en merkilegt var að hún blossaði upp einstöku sinnum við mjög sérkennilegar aðstæður, s.s. þegar ég stóð í úrhellisrigningu og beið eftir strætó, þegar ég var á Leifsstöð á leið til útlanda og þegar ég fór á pöpparölt en ég stóðst freistinguna.
Reykingamenn eiga samúð mína, því með lögum hefur ríkið bannað reykingar á opinberum veitingastöðum og börum. Heilbrigðisráðherra vissi sem var að sjúkdómar sem rekja má til reykinga er að sliga heilbrigðiskerfið, þrátt fyrir það er forræðishyggja ríkisins í þessu máli umhugsunarverð. Í ljósi þess að ríkið hefur með höndum einokun á sölu og dreifingu á tóbaki og víni hér á landi.
Reykinga- og veitingamenn hefðu átt að láta heyra í sér þegar fjallað var um frumvarpið um reykingabann á veitingahúsm og börum á Alþingi. Fylgist fólk ekki með því sem gerist í sölum Alþingis þegar sett eru lög um stjórn landsins? Það er ef til vill dálítið seint í rassinn gripið hjá veitingamönnum að gera eitthvað fyrir reykingamenn þegar lögin eru gengin í gildi. Margir veitingamenn ætla að útbúa tjöld fyrir utan barina þannig að reykingamenn eiga á hættu fá sjúkdóma sem tengdir eru kulda og vosbúð ásamt því að eiga á hættu að fá sjúkdóma sem rekja má til reykinga. Það gæti kostað heilbrigðiskerfið drjúgan skilding í viðbót.
Boð og bönn er ekki alltaf rétta leiðin til að ná árangri. Forvarnir í fjölbreyttri mynd er heppilegasta leiðin til að hafa áhrif á börn og unglinga og koma í veg fyrir að þau byrji að reyka. Hvetjum ríkisvaldið til að tryggja að nægu fjármagni verði veitt í forvarnir gegn reykingum.
Bloggar | Breytt 10.6.2007 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2007 | 19:05
Iðnaðarráðherra eða stjórnmálaskýrandi!
Nýskipaður iðnaðarráðherra gefur sér tíma til að sinna stjórnmálaskýringu og afraksturinn birtist í Blaðinu um daginn. Það er mjög áhugavert að lesa greinina og ég brosti með sjálfri mér eftir lesturinn. Ég taldi hversu oft hann kenndi hina nýskipuðu ríkisstjórn við hinn helga þingstað okkar Íslendinga, - það var bara nokkuð oft. Eitthvað virðist óljós nafngift ríkisstjórnarinnar vera viðkvæm hjá ráðamönnum okkar í dag, en eins og menn vita hefur hún fengið mörg nöfn, sem ég hef ekki eftir hér.
Eftirtektarvert í grein iðnaðarráðherra er hve vel hann setur sig inn í innra starf Framsóknarflokksins og virðist þekkja vel til ungra og efnilegra framsóknarmanna sem hann telur að eigi eftir að setja mark sitt á stjórnmálasögu okkar í framtíðinni. Framsóknarmenn hljóta að þakka iðnaðarráðherra fyrir þessa stjórnmálaskýringu sem sýnir fram á bjarta framtíð hjá Framsóknarflokknum. Iðnaðarráðherra nefnir hins vegar ekki ungt og efnilegt fólk í hans eigin flokki. Oddviti þessa hóps er hinn ungi varaformaður Samfylkingarinnar sem á greinilega ekki upp á pallborðið hjá leiðandi mönnum innan flokksins. Iðnaðarráðherra hefur greinilega ekki mikla trúa á ungu fólki í Samfylkingunni því hann kallar til liðs við sig sem aðstoðarmann eldri herramann sem var félagi iðnaðarráðherra í Alþýðubandalaginu á sínum tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2007 | 14:15
Til hamingju með afmælið, Kleppur!
Kleppspítali er 100 ára. Þegar ég var barn ólst ég upp í Smáíbúðarhverfinu. Á þeim tíma fengu foreldrar mínir stundum símhringingu frá Kleppi og þeim var sagt að vinur frænda míns hefði strokið þaðan. Starfsmenn hringdu venjulega í nokkra ættingja og vini þessa unga veika manns. Menn vissu að hann leitaði skjóls til ákveðinna aðila. Frændi minn bjó hjá okkur á þessum tíma en hann var æskuvinur þessa unga veika manns. Vinur frænda míns kom iðulega heim til okkar þegar hann strauk af Kleppi. Mamma tók alltaf vel á móti honum og gaf honum að borða og spjallaði við hann þar til gæslumenn á Kleppi sóttu hann. Við krakkarnir vorum hrædd við manninn og földum okkur þegar hann kom. Þessi ungi maður hafði verið lengi á Kleppi eða frá því að hann var unglingur. Mér var sögð saga hans og fannst hún döpur eins og saga margra sem eru veikir á geði.
Síðar á ævinni átti ég eftir að vinna í nokkur ár á Kleppi meðan ég stundaði háskólanám. Ég var aðstoðarmaður í rannsóknum og hafði aðstöðu í gamla læknabústaðinum. Ég hafði lítil samskipti við sjúklinga nema þegar ég mætti þeim á leið í og úr vinnu eða þegar ég skrapp út í matsal. Í læknabústaðnum var einnig bókasafn og oft voru þar í starfsnámi nemar í bókasafnsfræði. Ég man sérstaklega eftir einni konu, sem var um fertugt, og var í starfsnámi á bókasafninu í stuttan tíma. Ég tók eftir því að hún fór ekki í mat eða kaffi út í matsal meðan á starfsnáminu stóð. Ég spurði hana eitt sinn hvers vegna hún færi ekki í kaffi með hinum og hún svaraði mér með annarri spurningu. Ertu ekki hrædd við að sjúklingarnir ráðist á þig þegar þú ferð út í kaffi? Ég var undrandi á þessari spurningu. Það hafði aldrei hvarflað að mér að hræðast sjúklingana. Það voru aðrar tilfinningar sem hrærðust með mér en hræðsla við veikt fólk.
Fyrir unga konu sem var að hefja lífsbaráttuna var starfið á Kleppi mjög lærdómsríkt og gott veganesti út í lífið. Á Kleppi kynntist ég áhugaverðu fólki sem er mér ennþá minnisstætt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2007 | 15:49
Ríkisstjórnin - hvað á hún að heita?
Ný ríkisstjórn hefur litið dagsins ljós og hefur hún verið nefnd ýmsum nöfnum sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Hluti þessarar ríkisstjórnar hefur verið við völd í 16 ár, eins og alþjóð veit, þannig að sama áhöfnin með sömu yfirmönnum stýra ríkisskútunni áfram eins og verið hefur. Athyglisvert er að konum í Sjálfstæðisflokknum er ekki treyst til að taka þátt í að stýra fleyinu.
Hinn nýji hluti ríkisstjórnarinnar teflir fram fölbreyttri áhöfn, konum og körlum, reyndum og óreyndum. Ég átti ekki von á öðru en að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún, gætti kynjajafnræðis í úthlutun á ráðherraembættum þar sem hún sótti fylgið sitt til kvenna á besta aldri, kvenna sem voru samferðakonur hennar í Kvennalistanum á sínum tíma.
Hin nýja ríkisstjórn tekur við góðri og vel sjófærri ríkisskútu, sem framsóknarmenn áttu drjúgan þátt í að skapa. Það er von mín að þessi nýja ríkisstjórn hafi stjórn á ríkisskútunni og beri gæfu til að sigla henni ekki í strand.Bloggar | Breytt 27.5.2007 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2007 | 17:36
Það er einfalt að opna bloggsíðu
Bloggsíðan mín er orðin að veruleika. Það er greinilega einfalt að opna bloggsíðu. Ég hef lengi velt því fyrir mér hver tilgangurinn með nútíma dagbókum á netinu er. Menn tjá sig bæði um einkamál sín og annarra í dagbækurnar sem þeir myndu annars ekki ræða um á vinnustað eða annarsstaðar, en á netið skal það fara.
Það sem mér finnst hins vegar áhugavert er sú þjóðfélagslega og stjórnmálalega umræða sem fer fram á netinu. Netið gefur almenningi tækifæri til að tjá skoðanir sínar og vera virka í umræðunni, það er ég þakklát fyrir. Í ljósi þess að fjórða valdið, fjölmiðlar, stjórna því hvað er rætt um og hverjir taka þátt í umræðunni. Fjölmiðlar hafa áhrif á skoðanir almennings, með fullri virðingu fyrir okkur neytendum. Það er spurning um að endurtaka sama atriði nógu oft og þá halda menn að það sé satt og rétt.
Bloggar | Breytt 25.5.2007 kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)