28.5.2007 | 14:15
Til hamingju með afmælið, Kleppur!
Kleppspítali er 100 ára. Þegar ég var barn ólst ég upp í Smáíbúðarhverfinu. Á þeim tíma fengu foreldrar mínir stundum símhringingu frá Kleppi og þeim var sagt að vinur frænda míns hefði strokið þaðan. Starfsmenn hringdu venjulega í nokkra ættingja og vini þessa unga veika manns. Menn vissu að hann leitaði skjóls til ákveðinna aðila. Frændi minn bjó hjá okkur á þessum tíma en hann var æskuvinur þessa unga veika manns. Vinur frænda míns kom iðulega heim til okkar þegar hann strauk af Kleppi. Mamma tók alltaf vel á móti honum og gaf honum að borða og spjallaði við hann þar til gæslumenn á Kleppi sóttu hann. Við krakkarnir vorum hrædd við manninn og földum okkur þegar hann kom. Þessi ungi maður hafði verið lengi á Kleppi eða frá því að hann var unglingur. Mér var sögð saga hans og fannst hún döpur eins og saga margra sem eru veikir á geði.
Síðar á ævinni átti ég eftir að vinna í nokkur ár á Kleppi meðan ég stundaði háskólanám. Ég var aðstoðarmaður í rannsóknum og hafði aðstöðu í gamla læknabústaðinum. Ég hafði lítil samskipti við sjúklinga nema þegar ég mætti þeim á leið í og úr vinnu eða þegar ég skrapp út í matsal. Í læknabústaðnum var einnig bókasafn og oft voru þar í starfsnámi nemar í bókasafnsfræði. Ég man sérstaklega eftir einni konu, sem var um fertugt, og var í starfsnámi á bókasafninu í stuttan tíma. Ég tók eftir því að hún fór ekki í mat eða kaffi út í matsal meðan á starfsnáminu stóð. Ég spurði hana eitt sinn hvers vegna hún færi ekki í kaffi með hinum og hún svaraði mér með annarri spurningu. Ertu ekki hrædd við að sjúklingarnir ráðist á þig þegar þú ferð út í kaffi? Ég var undrandi á þessari spurningu. Það hafði aldrei hvarflað að mér að hræðast sjúklingana. Það voru aðrar tilfinningar sem hrærðust með mér en hræðsla við veikt fólk.
Fyrir unga konu sem var að hefja lífsbaráttuna var starfið á Kleppi mjög lærdómsríkt og gott veganesti út í lífið. Á Kleppi kynntist ég áhugaverðu fólki sem er mér ennþá minnisstætt.
Athugasemdir
Sæl. kvitt fyrir lesningu.
Sveinn Hjörtur , 28.5.2007 kl. 19:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.