8.6.2007 | 15:13
Sveitarómantík og landbúnarkerfið
Ég dvaldi á Laugarvatni í nokkra daga í byrjun júní. Á Laugarvatni er gott að vera þar er alltaf gott veður eins og einn bóndinn á Laugarvatni sagði við mig þegar við mættumst rétt fyrir utan kaupfélagið í úrhellisrigningu. Ég mótmælti honum ekki enda er ég sammála. Það er alltaf spurning um hvernig maður lítur á hlutina.
Á fáeinum árum er áberandi hvað sumarbústaðabyggðin hefur stækkað í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi og í öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi. Í dag byggja menn stór einbýlishús með öllum nútímaþægindum á hálfum eða heilum hektara lands. Löndin eru girt og læst með lás sem hægt er að opna með því að slá inn númer í gsm síma eiganda. Fáein sveitabýli sjást ennþá. Mér segist svo hugur að byggðin á þessum svæðum eigi eftir að þéttast og tré, girðingar og hlið eiga eftir að byrgja okkur sýn til fjalla þegar ekið er eftir þjóðvegi eitt.
Menn ræða um litla nýliðun í bændastétt og að erfitt sé fyrir bændur að brauðfæða sig í hefðbundnum búskap. Margir bændur reyna að drýgja tekjurnar og stunda aðra atvinnu meðfram búskap og sumir starfrækja einhverskonar þjónustu við erlenda ferðamenn. Hefðbundinn búskapur er í hættu og bændur sjá sér ekki annað fært en að selja nýríkum Íslendingum jarðir sínar.
Áróður Samfylkingarinnar gegn bændum og landbúnaðarkerfinu hefur skapað neikvæða mynd af bændum og hefðbundnum búskap. Samfylkingin hefur undanfarin ár viljað stokka upp landbúnaðarkerfið, leggja niður verndartolla af landbúnaðarvörum og leyfa óhindraðan innflutning landbúnaðarvara frá öllum heimsálfum og þá sérstaklega frá Afríku og Asíu. Samfylkingin telur að tilgangurinn sé að lækka verð á landbúnaðarvörum til neytenda og aðstoða þróunarlöndin við að fóta sig í hnattvæðingunni. Það sem fylgir ekki sögunni er að með þessum aðgerðum er verið að útrýma bændastéttinni og hefðbundnum búskap á Íslandi. Stjórnvöld þurfa að skoða gaumgæfilega þær afleiðingar sem fyrirhugaðar breytingar í landbúnaðarkerfinu hafa í för með sér fyrir Íslendinga um ókomna framtíð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.